Eydís kveður Vinnslustöðina eftir rúman aldarfjórðung
Særún Eydís Ásgeirsdóttir hóf störf hjá Vinnslustöðinni 1997 sem verkakona í fiskvinnslu.
Eydís vann í Vinnslustöðinni nær óslitið til dagsins í dag. Tók sér örstutta pásu þegar hún flutti frá Eyjum. Hún hefur verið umsjónarkona á kaffistofu Vinnslustöðvarinnar í ein 10 ár.
Þar hefur hún fætt og klætt starfsfólkið, passað upp á að allir séu hluti af hópnum, gætt að umgengis- og öryggismálum og tekið einstaklega vel á móti nýju starfsfólki og gætir þess að allir séu jafnir. Hún ber líka hag Vinnslustöðvarinnar í brjósti og er ávallt umhugað um að þar gangi hlutirnir vel fyrir sig.
Fréttaritari vsv.is settist niður með Eydísi í kaffistofunni og ræddi við hana um lífshlaupið og starfsferil hennar í Vinnslustöðinni.
Í upphafi viðtalsins komu fyrrum samstarfsfélagar Eydísar sem leið áttu hjá til að kasta á hana kveðju. Það er morgunljóst að þarna eru félagar á ferð sem sakna þess að hafa ekki Eydísi lengur í hinu daglega amstri í kringum þá.
Þegar Lilja Björg Arngrímsdóttir tilkynnti starfsmönnum að Eydís væri hætt þá rifust þau um það hvern hún elskaði mest. Síðan var Lilja spurð hvort það yrði ekki örugglega partý fyrir Eydísi. Sem svo sannarlega var gert. Sú kveðjuveisla var haldin í liðinni viku.

Eydís á vaktinni í kaffistofunni.
Fædd og uppalin í Hrunamannahreppi
Eydís er fædd í apríl 1962. Hún er fædd og uppalin í Hrunamannahreppi (á Flúðum). Hún er bóndadóttir. „Pabbi var með kindur og hesta. Ég átti nú bara svona venjulega sveita æsku. Ég vann í sveitinni. Gekk í öll störf sem þurfti að sinna, bæði úti og inni. Smalandi, á hestum, rýja, heyja og allt þetta týpíska sem er í sveit. Ég fór á þrjár sláturtíðir á Selfoss.”
Þegar Eydís kemur til Eyja, þá sautján ára fer hún að vinna í Nöf. Nöf átti þá Óskar Matthíasson. „Ég sagði Óskari Matt að ég væri úr sveitinni og þá var ég ráðin.” Hún var þar á tveimur vertíðum og tekur fram að það hafi verið mjög gaman að vinna þar.
„Það var erfitt. Við unnum mikið, langt fram á kvöld. „Ég var hjá Óskari og Þóru í eina vertíð og hjá Bobbu og Gísla Sigmarssyni seinni vertíðina. Ég kynntist þessum fjölskyldum mjög vel,” segir Eydís.
Kom fyrst til Eyja sextán ára gömul
Hún hefur svo störf í Vinnslustöðinni í janúar 1997. „Ég hringi í Inga Júll og hann spyr aðeins út í mig og honum leist vel á og ég er ráðin samstundis. Það vantaði fólk eftir hádegi og fyrst um sinn vann ég milli 13 og 17. Mér er minnisstætt þegar ég kom hingað fyrst þá má segja að ég hafi komi hingað með látum. Það var vonsku veður, mjög hvasst, þegar ég kom hingað í skólaferðalag sextán ára gömul með Flúðaskóla. Kem hingað í maí. Mikið lifandi skelfing fannst okkur krökkunum vond lykt hérna þá. Það var gúanó-fýlan.”
Fékk að kynnast Brjáluðu Bínu á fyrstu vakt
En aftur að komu hennar til Eyja árið eftir, þegar Eydís kom hingað til að vinna. Hún er ráðin til Vinnslustöðvarinnar og er að vinna í síld. Er sett á vél við að pakka síld. ,,Þessi vél var svo illa stillt að hún gekk undir nafninu Brjálaða Bína. Þarna hugsaði ég – hvað er ég komin út í. Gífurlega margt fólk að vinna hérna. Ég hafði aldrei unnið með svona mikið af fólki og þarna byrja ég, vinn eitt til fimm. Þetta var fyrsta minningin. Að fara í alla þessa action, og þarna var gamla, gamla síldarkerfið. Það var skemmtilegt í vinnunni, fjör í pásunum, mikið hlegið.”
„Þegar síldarvertíð lauk þá fór maður að snyrta og pakka fiski á flæðilínu. Maður kom nálægt öllu. Seinna fékk ég vinnu allan daginn. Þá urðu breytingar hérna og mér var þá boðin vinna allan daginn. Maður gekk í öll störf. Í kringum aldamótin fer ég svo að aðstoða Línu í Túni í kaffinu og fer að þrífa hérna. Ég tók á móti fólki sem hingað kom. Það hefur náttúrulega komið hingað gífurlega mikið af fólki. Maður hjálpar nýju fólki að komast inn í allt hér. Síðustu ár hefur lítið bæst hér við af fólki. Síðast var það Úkraínufólkið sem kom.”
Eydís segir einnig frá því að hún hafi gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan fyrirtækisins. M.a. verið öryggistrúnaðarmaður auk þess þá sat hún í samninganefndum.

Eydís sýnir blaðamanni mynd af sér sem tekin er í vinnslunni í lok síðustu aldar.
Með heimþrá í Hafnarfirði
„Árið 2007 flyt ég í Hafnarfjörð. Er þar í 20 mánuði og kem svo aftur til Eyja 2009 og fer þá í saltfiskinn. Ég var með rosalega mikla heimþrá til Vestmannaeyja.
Svo hringir Anna Sigga sem þá var stjórnandi hér í Vinnslustöðinni í mig og spyr hvort að ég vilji taka að mér að vera yfirmaður og sjá um kaffistofuna. Seinna tek ég það að mér að panta allt hér inn sem snýr að fólkinu. Það sem fólkið notar og borðar. Við bjóðum alla daga upp á morgunmat. Þetta skiptir allt máli. Morgunmatnum var komið á þegar ég fór í Hafnarfjörðin og er því byrjað þegar ég kem aftur 2009. Ég tel að þetta hafi verið mikið framfaraskref hjá fyrirtækinu.”
Big mama
Spurð út í eitthvað skemmtilegt sem hún myndi eftir rifjar hún upp að það hafi oft verið fjör í kringum árshátíðirnar og þá voru yfirleitt framleidd árshátíðarmyndbönd. „Það var oft mikið lagt í myndbandagerðina og mikið hlegið og mikið stuð. Þá var oft fjör á vertíðum þegar gengnar voru átta tíma vaktir í jafnvel einhverja mánuði og eitt og annað sem kom upp á í slíku ati.”
Eitt sem að Eydís rifjar upp er það þegar hún fékk viðurnefnið Big mama. „Það áttu margir útlendingar erfitt með að segja nafnið mitt og ég byrjaði á því að segja þeim að ég væri svona eins og mamma. Að ég gæti reddað hinu og þessu fyrir þau. Ég væri í raun svona eins og Big mama. Og það kalla mig margir enn – með mínu samþykki – Big mama eða jafnvel mommy og ég bara svara þessu. Ég hef mikla þjónustulund og það kann fólkið að meta.”

Binni framkvæmdastjóri og Lilja Björg yfirmaður starfsmannamála þökkuðu Eydísi vel unnin störf.
Þakkir
Hvað á svo að gera í framhaldinu? Nú er ég bara að prjóna og gera handavinnu. Ég sakna samt alltaf fólksins hér. Hér þekki ég allt og alla.
Eydís fer í framhaldinu að tala um fiskveiðarnar og finnst svo erfitt að horfa upp á að ekki finnist mikil loðna, og ljóst að hugur hennar er enn í vinnunni þrátt fyrir að vera hætt. Í lokin vildi Eydís koma á framfæri kæru þakklæti til allra samstarfsfélaga í öll þessi ár.
Eins og áður segir var kveðjukaffi haldið fyrir Eydísi. Fjöldi manns mætti til að kveðja hana og fékk sér kaffi með henni þar sem boðið var upp á ljúffengar brauðtertur og rjómatertu.
Binni kvaddi hana með hlýjum orðum frá fyrirtækinu og lýsti Eydísi eins og við öll þekkjum hana. Hún ber hag allra fyrir brjósti og ekki síst fyrirtækisins. Fyrir það ber að þakka!

Eydís í kveðjuveislunni

