Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Sighvatur IMG 5815 Oos Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Fyrsti makríllinn til Eyja

Makrílvinnsla er hafin í uppsjávarhúsi Vinnslustöðvarinnar. Sighvatur Bjarnason VE kom til Eyja í gærkvöldi með fyrsta makrílfarminn í ár.

Ólafur Óskar Stefánsson skipstjóri á Sighvati segir í samtali við Vinnslustöðvarvefinn að aflinn hafi fengist í Rósagarðinum.

Hann segir að þeir hafi leitað á leiðinni en ekki orðið varir við makríl. Aðspurður um gæði segir hann að þetta sé fínn fiskur. „Um 540 gr. meðalþyngd, en töluverð áta í honum.”

Er hann er spurður hvort hann sé bjartsýnn á góða makrílvertíð segir hann að það sé erfitt að segja. „Oft koma tveir til þrír góðir dagar og svo dettur veiðin alveg niður á milli. Það er ekki mikið að sjá á svæðinu núna, en þetta byrjaði svosem rólega í fyrra líka. ”

Aflinn í skipinu vigtaði um 740 tonn og segir Ólafur Óskar að stefnan sé tekin beint aftur á miðin þegar löndun lýkur, en þeir eru um 22-23 tíma á miðin.

Átan er að valda okkur smá erfiðleikum

Benóný Þórisson, framleiðslustjóri var kátur að fá makríl í húsið. 

„Þetta gengur bara vel, svona miðað við að þetta sé fyrsti farmur. Það eru náttúrulega alltaf einhverjir hnökrar í byrjun sem þarf að eiga við, en heilt yfir gengur þetta nokkuð vel.

Við erum að hausa fiskinn, hirða það besta úr þessu og restin fer svo í bræðslu. Átan er að valda okkur smá erfiðleikum.” segir hann.

Aðspurður segir Benóný að hann reikni með að vinnsla klárist í kvöld. „Þeir ættu að komast á sjó aftur í fyrramálið.”

Makrill Vsv Is Minni

Benóný virðir fyrir sér makrílinn