Annar furðuþorskur veiddist við Surtsey

Ábyggilega er mun líklegra að fá stærsta lottóvinninginn en að draga furðafiska um borð á sama stað í tveimur veiðiferðum í sömu vikunni. Held ég skili bara lottómiðanum mínum!“ segir Kjartan Guðmundsson, skipstjóri á Drangavík VE.

Kjartan og áhöfn hans komu að landi á þriðjudaginn var með gulasta þorsk sem sést hefur upp úr sjó við Ísland og þótt víðar færi leitað. Líffræðilegt furðufyrirbæri.

Í næstu veiðiferð var Drangavíkin á veiðum á svipuðum slóðum. Á  heimleiðinni, að morgni fimmtudags, var tekið hal á nákvæmlega sama stað og fyrr, á svokölluðum 70 faðma „blettum“ 9 mílum vestur af Surtsey. Einn þorskur af mörgum skar sig úr og það sem um munaði. Hann var skjöldóttur!

Gísli Jónsson, sérgreinalæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, fékk myndir af fyrirbærinu líkt og af gulbínóanum fyrr í vikunni. Hann svaraði Vinnslustöðvarfólki um hæl í tölvupósti:

Ja, hvur skrambinn, þetta gæti verið hálfbróðir! Hér sannast enn og aftur að „sjaldan er ein báran stök“. Þessi vanskapnaður er af sama meiði og hinn. Hér vantar litafrumur í roðið en bara að hluta til. Akkúrat slíkar breytingar sjáum við af og til í bleikjum sem verða þá vel flekkóttar. Niðurstaða rannsókna á þeim leiðir í ljós ákveðinn erfðagalla en svo verða umhverfisaðstæður að vera með sérstökum hætti til að framkalla þennan „galla“.

Gunnar Jónsson, fiskifræðingur á eftirlaunum, fékk líka myndir af furðuþorski nr. 2. Hann varð orðlaus af undrun einni saman, sagði að slíkt væri afar sjaldgæft en samt :

Þarna við Surtsey virðist vera vistheimili fyrir erfðafræðilega afvegaleidda þorska! Sannarlega verðugt rannsóknarefni.

Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfisksviðs Vinnslustöðvarinnar, segir að gárungar í Eyjum tengi furðuþorskana tvo við veirufaraldur til lands og sjávar. Vinnslustöðvarmenn heyri líka glósur um að uppákomurnar séu sviðsettar og þorskarnir jafnvel málaðir til að sýnast skrítnir og komast í fréttir!

„Það er af og frá að við séum með leikaraskap. Málið allt er stórfurðulegt, hvernig svo sem á er litið. Auðvitað  höldum við fiskunum til haga. Þetta er eins raunveruleg uppákoma og mest getur verið.

Ég neita því hins vegar ekki að við yrðum algjörlega orðlaus ef Drangavík kæmi með þriðja furðuþorskinn að landi. Þá sannast að vísu hið fornkveðna og heilaga: Allt er þá þrennt er.

Þá væri  þríheilagt á furðufiskamiðum, á „blettunum“ við Surtsey.“

 

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.